Málörvun

Lubbi finnur málbein

Lubbi finnur málbein er málörvunarverkefni sem byggt er á þremur meginhlutum. Í fyrsta lagi er það reynsla og þekking talmeinafræðinga sem unnið hafa með börnum með tal- og málþroskaröskun. Í öðru lagi byggir málörvunarverkefnið á doktorsrannsókn Þóru Másdóttur um tileinkun íslenskra barna á málhljóðum íslenskunnar. Í þriðja og síðasta lagi snýst verkefnið um reynslu af notkun tákna og hreyfinga til stuðnings við hljóðmyndun ogframburð en þar kemur bókin Tákn með tali inn.  

Í bókinni Lubbi finnur málbein eru tákn notuð fyrir hvert hljóð hvers bókstaf en með því að nota tákn er hægt að gera hljóðið mun merkingaríkara og áþreifanlegra. Táknin eru búin til af íslenskum höfundum og á hver stafur/hvert hljóð sitt tákn og því fylgir vísa sem sungin er þegar verið er að kenna börnunum hljóð stafsins. Vísurnar eru auðveldar og flest börn eiga auðvelt með að muna þær. Öll tákn sérhljóðanna lýsa og tengjast tilfinningum eða líðan og tákn samhljóðanna tengjast athöfnum. Í leikskólanum er unnið með málbein en hvert málbein stendur fyrir eitt hljóð. Á þessu málbeinum eru hljóðin í mismunandi litum eftir því hvaða hljóðflokki þau tilheyra. 

Markviss málörvun

 

 

 

 

Markviss málörvun felur í sér kerfisbundin vinnubrögð í leik, þar sem markmiðið er að auka málvitund og þjálfa hljóðkerfisvitund barna. Áætlunin er byggð upp í leikjaformi til þess að ná athygli þeirra og vekja áhuga um leið og leikþörf barnanna og leikgleði er mætt.

Leikirnir eru í 6 aðal flokkum:

 

  1. Hlustunarleikir
  2. Rímleikir
  3. Setningar og orð
  4. Samstöfur
  5. Forhljóð
  6. Hljóðgreining

 

Í Markvissri málörvun læra börnin að tjá sig og hlusta. Margir leikirnir eru einnig hreyfileikir sem efla hreyfi- og félagsþroska. Þeir þjálfa einnig athygli, einbeitingu og hugtakaskilning, auk þess sem þeir víkka sjóndeildarhring barnanna.