Könnunarleikur

Könnunarleikurinn (heurestic play) byggir á því að bjóða börnunum upp á aðgang að efnivið sem þau geta leikið sér með, kannað og gert uppgötvanir upp á eigin spýtur. Þau þarfnast mikillar fjölbreytni til að geta stundað þessar rannsóknir sínar, hluti sem eru óhefðbundnir og áhugaverðir. Með könnunarleik fær barnið tækifæri til að skoða hluti og tengja þá sínum reynsluheimi.  Einn lykill getur gefið barni tækifæri til að fara í bíltúr eða flugferð og ferðast um heiminn.

Gott rými er nauðsynlegt til að könnunarleikurinn fái að njóta sín, börnin þurfa að geta hreyft sig töluvert um en vera samt á afmörkuðu svæði þar sem þau verða ekki fyrir truflunum frá öðrum börnum og ekki er boðið upp á önnur leikföng eða annað leikefni meðan á leiknum stendur.

Leikefnið er til dæmis :

  • Mismunandi tegundir af ílátum: ýmiskonar ílát úr plasti, plastflöskur í mismunandi stærðum o.fl.
  • Hlutir sem rúlla: filmubox, tvinnakefli, pappahólkar o.fl.
  • Aðrir hlutir: þvottaklemmur úr tré, keðjur af ýmsum gerðum, krukkulok, gardínuhringir, gamlir lyklar, svampar og fleira sem til fellur.

Tiltekt í lok tímans er einn þáttur leiksins, þar sem hinn fullorðni er með, spjallar við börnin og fær þau til að safna saman leikefninu og flokka í poka eða körfur.  Börnin tengja saman orð og hluti og æfa hugtakaskilning sinn.

Könnunarleikurinn hefur opnað nýja leið í leikskólastarfi okkar á Teigakoti, börnin gleyma stund og stað.  Þau sökkva sér í leikinn og lítið er um árekstra milli þeirra.  Samskipti barnanna aukast og efniviðurinn bíður upp á óteljandi möguleika fyrir leik þeirra, hvert og eitt stýrir sínum leik án afskipta frá öðrum. tarfsmenn á Teigakoti hafa verið mjög ánægðir með þennan leik því það gefur okkur tækifæri til að fylgjast með börnunum þróa sig áfram, njóta þess að vera þátttakendur í uppgötvunarleik og sjá þau blómstra í leiknum.  Við höfum upplifað breytingar og þróun en mest höfum við notið þess að sjá börnin ánægð og glöð í leiknum og samskiptin þróast milli þeirra og verða að vináttu.