Lús

Allir geta fengið lús. Lúsasmit er ekki merki um óþrifnað.

 • Lúsin smitast nær eingöngu við beina snertingu. Það er sáralítil hætta á að smitast af umhverfinu, en það er möguleiki að smitast af greiðum, burstum og höfuðfötum.
 • Lús sem dottið hefur úr höfði verður fljótt löskuð og veikburða
 • Ef upp kemur lús í leikskólanum viljum við benda foreldrum á eftirtalin atriði
 1. Skoðið hárið vel undir sterku ljósi, lúsin kann best við sig í hnakka, á hvirfli og aftan við eyru. Eggin / nitin eru eins og litlir hnúðar á hárinu. Nitin eru oft ljós, dökk eða silfurlit. Lúsin límir þau föst, þess vegna strjúkast þau ekki auðveldlega af hárinu. Það er tiltölulega auðvelt að sjá fullvaxna lús, hún er 2-3 mm að stærð, oft grá, dökk eða ljósbrún. Hins vegar getur verið mjög erfitt að finna þær lýs sem eru nýkomnar úr eggjunum, þær eru pínulitlar og hálfgegnsæjar.
 2. Notið sérstaka lúsakamba sem fást í lyfjaverslunum. Til eru mismunandi tegundir af kömbum, t.d. sérstakir fyrir þykkt og sítt hár.
 • Greiðið í gegn um hárið.
 • Setjið hárnæringu í þurrt hárið og dreifið henni vel um hárið.
 • Byrjið að kemba með kambinum við hársvörðinn og kembið vel út í hárendana, gerið þetta yfir hvítu blaði, spegli, eða vaski með vatni í.
 • Sé hárið sítt eða þykkt er betra að skipta hárinu upp og kemba hvert svæði fyrir sig.
 • Eftir hverja kembingu í gegn um hárið, er rétt að strjúka af kambinum með eldhúspappír til að tryggja að lús eða nit verði ekki eftir í kambinum.
 1. Ef lús eða nit finnst er það ótvírætt merki um smit og þarfnast meðhöndlunar með sérstöku lúsameðali sem fæst án lyfseðils í lyfjaverslunum.
  • Tilkynnið lúsasmitið til skólans.
  • Leitið að lús hjá öllum í fjölskyldunni, meðhöndlið aðeins þá sem eru með lús.
  • Fylgið leiðbeiningum um meðhöndlun nákvæmlega.
  • Setjið lúsameðalið í rakt hárið, forðist að bleyta hárið of mikið, það dregur úr virkni lyfsins.
  • Ráðlagt er að kemba alla í fjölskyldunni daginn eftir meðferð (á 1. degi) til að athuga hvort meðferð hafi tekist. Ef lús finnst þarf að endurtaka meðferð strax.
  • Kemba þarf á fjögurra daga fresti næstu 2 vikur þ.e. á 1. degi, 5. degi, 9. degi og 13. degi.
  • Ekki er nauðsynlegt að þrífa heimili eða fatnað sérstaklega.
  • Ráðlegt er að meðhöndla bursta, greiður, kamba, hárskraut og húfur vegna möguleika á smiti.
  • Hella skal sjóðandi vatni yfir og láta liggja í bleyti í 10-15 mín. eða frysta í 4-6 klst.