Skipulagsdagur 29. mars

Þann 29. mars fóru allir starfsmenn Teigasels í heimsókn í tvo skóla á höfuðborgarsvæðinu til að kynna sér hvað þeir væru að gera. Fyrst var haldið í leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði sem hefur verið að vinna að þróunarvinnu ásamt  Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðingi með snemmtæka íhlutun í málörvuna ungra barna. Norðurberg hefur einnig einblínt á hvernig er unnið í málörvun í kjölfarið á snemmtækri íhlutun þegar börnin hafa náð þriggja ára aldri og hvaða möguleikar eru fyrir hendi í málörvunarstarfi fyrir alla aldurshópa.

Við kíktum næst í heimsókn í Krikaskóla í Mosfellsbæ. Krikaskóli er skóli fyrir börn frá aldrinum 2-9 ára. Þar hefur verið unnið markvisst starf með stærðfræði hjá öllum aldurshópum þar sem áhersla er lögð á hlutverk kennarans og þær kennsluaðferðir sem byggja upp skilning barna á aðgerðum og magni. Þær aðferðir sem unnið er með í Krikaskóla í stærðfræði eru sambærilegar við þær sem við vinnum með hér í Teigaseli og var mjög gott að fá nýja sýn á því hvernig aðrir vinna með sama efni.

with-eyes-numbers-clipart-1

Skrifað undir þjóðarsáttmála um læsi

Á Akranesi var í dag skrifað undir þjóðarsáttmála um læsi sem er átak sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við sveitarfélög og skóla. Markmið átaksins er að öll börn geti lesið sér til gagns þegar grunnskólagöngu lýkur. Með undirritun sáttmálans skuldbinda sveitarfélögin og ríkið sig til að vinna með öllum tiltækum ráðum að því markmiði. Framlag ráðuneytisins til verkefnisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra. Stjórnendur frá öllum skólum sveitarfélaganna voru viðstaddir undirritunina. Nánar um viðburðinn má lesa á skessuhorn.is