Sérkennsla

Valdís Sigurðardóttir er sérkennslustjóri í leikskólanum. Hún ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar ásamt leikskólastjóra. Einnig hefur hún umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu. Hægt er að hafa samband við Valdísi símleiðis í síma 433-1281/433-1280 eða á netfangið valdis.sigurdardottir@akranes.is 

Sérkennslustjóri er ekki með fastan viðtalstíma en foreldrar geta óskað eftir viðtali með því að hringja eða senda tölvupóst.

Sérkennslustjóri sér um að boða teymisfundi þar sem foreldrar mæta ásamt teyminu sem er í kringum viðkomandi barn og skrifar fundagerð sem er send til allra sem málið varðar. Sérkennslustjóri er í daglegum samskiptum við deildarstjóra og leikskólastjóra leikskólans til að byggja upp traust net um börnin innan leikskólans.

Leikskólinn Teigasel starfar samkvæmt lögum og Aðalnámskrá leikskóla frá 2011, að sérkennslu. Teigasel miðar við að lýðræðislegt leikskólastarf byggist á jafnrétti, fjölbreytileika, samábyrgð, samstöðu og viðurkenningu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Þar sem allir eiga að vera jafn réttháir og eru þátttakendur í námi sínu og þroska.

Ef áhyggjur vakna af þroska barna þá getur leikskólinn í samráði við foreldra, kallað eftir þjónustu sérfræðinga. Viðkomandi sérfræðingur gerir þá formlega athugun á þroska barnsins með viðeigandi þroskaprófi eða matstæki. Hjá bæjarfélaginu starfa meðal annars talmeinafræðingur, iðjuþjálfi og sálfræðingur. Niðurstöður athugunar eru ræddar við foreldra og vinna með barnið er skilgreind nánar í samvinnu við þá.

Nám án aðgreiningar – sérkennsla

Leikskóli er fyrir öll börn á leikskólaaldri. Í leikskóla eru börn með mismunandi atgervi og frá ólíkum menningarheimum. Leitast er við að hvert barn fái viðfangsefni við sitt hæfi. Mikilvægt er að félagsskapur og samskipti barnanna bindi þau vináttuböndum og styrki samkennd þeirra. Það er gott fyrir öll börn að í leikskóla sé sem fjölbreyttastur barnahópur.
Börn með fötlun eða frávik í þroska fá sérkennslu samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur þar um. Meginreglan er að sérkennslan fari fram í hópnum með öðrum börnum. Leikskólinn ræður kennara með sérþekkingu til dæmis leikskólasérkennara, leikskólakennara og/eða þroskaþjálfa.