Könnunarleikur

Breski uppeldisfræðingurinn Elinor Goldschmied hefur útfært leikjaaðferð fyrir yngstu börnin í leikskólanum, heuristic play with objects, sem hefur verið þýtt með hugtakinu, könnunarleikur með hluti. Hugtakið „heuristic“ er að uppruna gríska orðið „eurisko“ og þýðir „til að uppgötva“ eða „öðlast skilning á“ sem lýsir nákvæmlega því sem börnin eru að gera í könnunarleik. Með því að nota þetta óvenjulega orð er á virðulegan hátt vakin athygli á því hve leikur barnanna er merkilegur og mikil reisn yfir honum. Börn starfa af eigin hvötum ef þau fá viðeigandi hluti, sjálf og fyrir sig sjálf, án þess að fullorðnir stýri þeim í leik. Meðfæddur áhugi þeirra og forvitni á umhverfinu fær útrás og í könnunarleiknum er hægt að efla þessa eiginleika.

Goldschmied bendir á að börn á öðru og þriðja ári hafi mikla þörf fyrir að rannsaka og uppgötva á eigin spýtur hvernig hlutir haga sér í rými þegar þau stjórna þeim. Þau þarfnast fjölbreyttra hluta til að geta stundað þessar rannsóknir sínar, hluta sem eru sífellt nýir og áhugaverðir (sjá tillögur að hlutum í fskj. 3). Hún leggur áherslu á að könnunarleikur er nálgun, en ekki niðurnjörvuð starfsaðferð. Í stuttu máli felst könnunarleikur í að hópi barna er boðinn aðgangur að fjölda ólíkra hluta sem þau mega leika sér með án afskipta fullorðinna í ákveðinn tíma (20 – 60 mínútur) á skipulögðu afmörkuðu svæði. Eins og nafnið bendir til kanna börnin möguleika hlutanna og þau gera það upp á eigin spýtur, enda vísar orðið heuristic til leitar og einhvers sem getur leitt þau áfram til aukinnar þekkingar. Ýmsar góðar ábendingar eru þó gefnar um þætti í skipulagningu sem æskilegt er að séu til staðar til þess að leikurinn verði eins ánægjulegur fyrir börnin og hægt er. T.d. að könnunarleikurinn eigi að vera ákveðin stund dagsins sem hefur upphaf og endi. Í upphafi skal starfsmaðurinn undirbúa leikinn með því að raða upp leikefninu og að því loknu bjóða börnunum að gjöra svo vel að leggja af stað í vísindaleiðangur.

Í könnunarleik læra börnin að nota ólíka hluti á margvíslegan hátt; fylla og tæma, setja saman, velja og hafna, finna hvað er líkt og ólíkt, stafla hlutum og láta þá halda jafnvægi, stundum tekst það, stundum ekki, en alltaf er stefnt að settu marki. Til að börnin lendi ekki í óþarfa árekstrum þarf að vera nóg af viðfangsefnum og gott rými. Hlutir sem notaðir eru í könnunarleik færa ungum börnum þá reynslu að möguleikar hluta eru óþrjótandi. Þau læra frá unga aldri að það er hægt að fara margar ólíkar leiðir að sama markmiðinu. Mikil áhersla er lögð á að starfsmaðurinn eða kennarinn skipti sér ekki af leik barnanna nema nauðsyn beri til, t.d. ef barn fer að henda hlutum og trufla hin börnin. Hinn fullorðni situr afsíðis og fylgist með, skráir ef til vill leik eins barns, samskipti o.þ.h. Þar fyrir utan er hann tímavörður og sér til þess að stundinni ljúki ekki í óðagoti af því að það gleymdist að hugsa fyrir tíma til frágangs. Frágangur er mikilvægur í könnunarleik og með þolinmæði og rólegu andrúmslofti skilja jafnvel yngstu börnin hvað þarf að gera. Það getur verið mjög gaman að taka saman og markar ákveðin verklok bæði hjá fullorðnum og börnum. Á meðan á leiknum stendur talar hinn fullorðni ekki að fyrra bragði nema tilefni gefist s.s. til að skakka leikinn eða örva einstakling til dáða, en í tiltektinni nefnir hann hlutina sem hann vill að barnið taki saman og eykur á þann hátt við orðaforða og málskilning barnsins. Með því að nefna hlutinn tengir barnið saman orð og hlut. Í leiknum hafa börnin kynnst eðli hvers hlutar í gegnum skilningarvitin þannig að nafn hlutarins fær raunverulega merkingu.